Fáni fyrir nýja þjóð

2018

Í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands þann 1. desember 2018 var opnuð sýning á fjórum tillögum um hönnun íslenska fánans frá öðrum áratug 20. aldar, meðal annars tillögur frá Kristjáni X konungi og Kjarval. Þessar tillögur voru síðan endurspeglaðar í fjórum nýjum tillögum, unnar af hönnuðum og listamönnum nútímans.

Hugmyndafræðin á bakvið mitt framlag var svohljóðandi:

„Myrkur og ljós. Eldur og ís. Fortíð og framtíð. Á Íslandi ríkja ýmsar andstæður. Löng og dimm íslensk vetrarnóttin er mótsögn við sumarmánuðina þar sem sólin virðist aldrei setjast. Undir jöklum landsins kraumar eldur og hvort um sig hefur sett sterkan svip á íslenskt landslag. Íslensk þjóð státar sig af merkilegri arfleið sinni en horfir á leið björtum augum fram á við. Samtengd form á fánanum vísa í samvinnu þessara andstæðna og hvernig þau öfl hafa mótað Ísland og íslenskt samfélag.

Táknfræði fánans er þó ekki alger og er það áhorfandans að túlka hann út frá upplifun sinni. Ef til vill mætti segja að blái liturinn vísi í senn bæði til sjávar og fjallablámans eða sá svarti til hrauns, standa eða ösku. Formin má einnig túlka sem fjöll, útsaum, útskurð, eldgos og svo framvegis. Þá kinka hliðruð staðsetning formanna á fleti fánans einnig kolli til hönnunar annara norrænna fána.“

Höfundur sýningarinnar og sýningarstjóri var Hörður Lárusson, og hún unnin í samstarfi við Forsætisráðuneytið og Hönnunarsmiðstöð Íslands.